Íslensk grafík

Félagið Íslensk Grafík (einnig kallað Grafíkfélagið) var stofnað í núverandi mynd árið 1969 en var upprunalega stofnað árið 1954.

Ég hef starfað sem formaður félagsins í 6 ár og þar á undan hef ég verið í stjórn og verkstæðisnefnd í mörg ár. Öll vinnan er sjálfboðavinna, en þau forréttindi að starfa með svo frábæru fólki og stórkostlegum listamönnum, kann ég vel að meta. Félagið er auðvitað með heimasíðu (sem er verið að uppfæra) Facbook og Instagram. Endilega follow!

Meginliðurinn í starfsemi félagsins hefur lengst af verið sýningarhald af ýmsu tagi, einkum sýningar á verkum félagsmanna innan lands og utan og útgáfa kynningarrita um íslenska grafíklistamenn og verk þeirra. Það hefur líka gefið út möppur með verkum félagsmanna og þannig stuðlað að aukinni dreifingu grafíklistar. Félagið hefur sömuleiðis staðið að kynningu á erlendri grafík hérlendis. Í félaginu eru í dag yfir 70 listamenn. Þeir einir eru meðlimir sem lokið hafa minnst 4ra ára námi frá viðurkenndum listaskóla og hafa starfað að listsköpun í minnst 2 ár.
Íslensk Grafík rekur sýningarsal og verkstæði í hjarta Reykjavíkur og auðgar félagið menningarlíf landsins sem er opið fimmtudaga – sunnudaga frá kl. 14-17. Íslensk Grafík leggur mikla áherslu á félags og einstaklingsfrelsi í menningarsamfélaginu. Íslensk Grafík er fagfélag myndlistarmanna sem vilja glíma við grafískar úrlausnin á hugmyndum sínum.

Hlutverk félagsins er:
• að vera hagsmunafélag grafíklistamanna
• að stuðla að framgangi grafíklista á Íslandi
• að gangast fyrir samsýningum félagsmanna
• að kynna erlenda grafík á Íslandi, svo og íslenska grafík á erlendum vettvangi


Ágrip af sögu félagsins
Árið 1954 stofnuðu nokkrir myndlistarmenn félagið Íslensk grafík í þeim tilgangi að vinna að kynningu og eflingar grafíklistar hérlendis. Þetta voru Hafsteinn Guðmundsson, Jóhannes Jóhannesson, Jón Engilberts, Jón Þorleifsson, Kjartan Guðjónsson, Benedikt Gunnarsson og Veturliði Gunnarsson. Starfsemi félagsins lagðist fljótlega niður enda félagsmenn fáir og lítil aðstaða til að vinna listgrafík hér á landi á þeim tíma.

Árið 1969 var núverandi félag stofnað undir sama nafni. Aðalhvatamaður þess og fyrsti formaður var Einar Hákonarson. Ekki eru bein tengsl milli félaganna tveggja önnur en þau að nokkrir af meðlimum hins fyrra gengu í hið síðara við stofnun þess. Einnig var tekið upp merki gamla félagsins sem Jón Engilberts teiknaði á sínum tíma.

Create your website with WordPress.com
Get started